Statt upp og gakk

Sermon  •  Submitted
0 ratings
· 10 views
Notes
Transcript
Sermon Tone Analysis
A
D
F
J
S
Emotion
A
C
T
Language
O
C
E
A
E
Social
View more →

Sálmar

Upphafssálmur: Guðs kirkja er byggð á bjargi (288)
Fyrir ritningarlestur: Ó Herra Jesús hjá oss ver (297)
Fyrir prédikun: Mikil er náðin þín (KFUM 120)
Þakkarfórn: Ég vil ljóða um Drottinn meðan lifi (KFUM 330)
Lokasálmur: Jesús sem að dauan deyddi (241)

Kollekta

Drottinn Guð, himneski faðir! Þú hefir af náð þinni kallað oss til þíns ríkis og með því til eilífs lífs og eilífrar sælu. Fyrirgef oss í Jesú nafni allar syndir vorar og yfirsjónir og skrýð þú oss hinu rétta brúðkaupsklæði, sannri iðrun og lifandi trú, svo að vér þjónum þér af hreinu hjarta og verðum í tölu þinna útvöldu barna, fyrir þinn elskulegan son, Jesúm Krist Drottinn vorn, sem með þér og Heilögum Anda lifir og ríkir, sannur Guð um aldir alda. Amen

Ritningarlestur

Fyrri ritningarlestur þessa Drottins dags er að finna í spádómsbók Esekíel, 18. kafla, versum 29-32.
Ezekiel 18:29–32 IS1981
29 Og þegar Ísraelsmenn segja: ,Atferli Drottins er ekki rétt!' - ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt? 30 Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar. 31 Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn? 32 Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, - segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa."
L: Þannig hljómar hið heilaga orð.
S: Guði sé þakkargjörð.
L: Síðari ritningarlestur þessa Drottins dags er að finna í bréfi Páls til Efesusmanna, fjórða kafla, versum 22-32.
Ephesians 4:22–32 IS1981
22 Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, 23 en endurnýjast í anda og hugsun og 24 íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans. 25 Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir. 26 Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. 27 Gefið djöflinum ekkert færi. 28 Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er. 29 Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra. 30 Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins. 31 Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. 32 Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.
L: Þannig hljómar hið heilaga orð.
S: Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs! Hvert annað ættum vér að fara!

Guðspjall

P: Guðspjallið skrifar guðspjallamaðurinn Matteus.
S: Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilega boðskap.
Matthew 9:1–8 IS1981
1 Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. 2 Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: "Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar." 3 Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: "Hann guðlastar!" 4 En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: "Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? 5 Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar' eða: ,Statt upp og gakk'? 6 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér" - og nú talar hann við lama manninn: "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!" 7 Og hann stóð upp og fór heim til sín. 8 En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.
P: Þannig hljómar hið heilaga guðspjall.
S: Lof sé þér Kristur.

Prédikun

Inngangur

Þessi saga um lama manninn sem Jesús læknaði, þekkist kannski best í þeirri mynd sem við finnum í 2. kafla Markúsarguðspjalls. Þar er sagt aðeins betur frá aðstæðunum, nefnilega því að Jesús var innan dyra þegar komið var með mannin, var húsið svo fullt að þeir komust ekki að. Fremur en að bíða eftir því að rýmkaði til í húsinu, gripu þeir til sinna ráða: Fóru upp á þak, rufu þar gat og létu manninn síga niður til Jesú. Það er af mörgu að taka fyrir þann sem prédikar yfir svoleiðis texta. Maður getur til dæmis tekið trú og framtakssemi vina lama mannsins sér til fyrirmyndar. Rétt eins og þeir, ættum við ekki að láta nokkurn hlut koma í veg fyrir að við komum til Jesú, hvorki með okkur sjálf, né með vini og vandamenn.
En þegar Matteus segir frá atburðunum í sínu guðspjalli, vantar öll þessi atriði. Hann segir einfaldlega það að menn færðu til Jesú laman mann í rekkju. Það beinir okkur í ákveðna átt. Vinir lama mannsins og þetta furðulega uppátæki þeirra hefur óneitanlega ákveðið kennslugildi. Án þess hefði þessi frásögn varla verið kennd í öllum sunnudagaskólum, og varla verið eins vel þekkt eins og hún er. En það er samt sem áður ekki megin atriði hennar, heldur er það, það sem á eftir kemur: Allt það sem Jesús gerði.

I: Syndir þínar eru fyrirgefnar

og það fyrsta sem hann gerir er að segja við lama manninn:
Matt 9:2 “Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar!”
Í okkar samfélagi, á Íslandi árið 2022, er auðvelt að hugsa sem svo: Hér beinir Jesús huga okkar að sálarlífi og andlegri heilsu og vellíðan mannsins. Kannski glímdi hann við vonda samvisku, eða bar með sér sársaukafullar upplifanir. Hugsanlega kenndi hann sjálfum sér um syndir sem aðrir höfðu drýgt gegn honum. Sennilega hafði honum verið sagt margoft að ástæða lömunarinnar, var sú að hann eða foreldrar hans höfðu drýgt einhverja alvarlega synd, og þá hefur hann eflaust brotið heilann um hvaða synd það gæti verið. Þannig hafði maðurinn verið kúgaður og jafnvel haldið niðri í örvæntingu.
Þeir sem hafa bent á þessa hlið málsins, benda óneitanlega á mikilvægt atriði, og það er augljóst að Jesús lét sér annt um sálarlíf þessa manns, sem og annarra. En það er samt sem áður ekki megin atriði þess sem Jesús gerir hér. Jesús veitir honum raunverulega fyrirgefningu fyrir raunverulega synd.
Og staðreyndin er sú að lömun mannsins, sem og öll veikindi, má rekja til syndarinnar. Ekki þannig skilið að hann eða foreldrar hans hafi endilega drýgt einhverja ákveðna synd sem leiddi til lömunarinnar, heldur að það hafi verið syndin sjálf, sem bjó í manninum, sem olli henni. Ég skal taka svolítið annað dæmi.
Fyrir allnokkrum árum var eldri maður sem sagði mér frá dóttur sinni, sem í mörg ár hafði verið of þung. Þrátt fyrir að hafa reynt að léttast, bætti hún þess í stað á sig, þ.e.a.s. þar til þróunin náði vendipunkti það árið. Í nokkrar vikur hafði þróunin loksins farið í rétta átt, og það var henni mikið gleðiefni. En um haustið hafði hún svo verið hjá lækni, og þá kom í ljós að þyngdartapið tengdist alvarlegum sjúkdóm. Einkennin gátu verið mörg, þar á meðal ógleði, ofþreyta, ýmiskonar sársauki, skapbreytingar og þyngdartap. Það væru mistök að greina einkennin til dæmis þannig að skapbreytingarnar væru ástæðan fyrir þyngdartapinu. Sannleikurinn var sá að hvort tveggja var einkenni á sama sjúkdóm.
Eins er það með syndina. Hún er löumun og skemmd í eðli mannsins, og vegna hennar hvílír refsing Guðs á náttúrunni allri. Við vitum ekki hvernig maðurinn varð lamaður þannig að vinir hans þurtu að bera hann. Og jafnvel þótt hann hafi ekki haft neina beina sök fyrir henni, þá stafaði hún samt sem áður af syndinni. Allt sem er illt gerir það, bæði það sem við sjálf erum valdur að, og það sem við þurfum að þola af hendi annarra eða af hendi náttúrunnar. Syndin er í raun og veru ekki ákveðnar hugsanir, orð og verk, heldur sú skemmd í eðli okkar sem veldur þessum hugsunum, orðum og verkum. Syndinni má að mörgu leyti lýsa, einmitt sem sjúkdóm. Og það sem Jesús gerir fyrir þennan mann, er að hann gefur honum eina meðalið sem virkar:
Fyrirgefningu syndanna.
Þetta er ekki fyrst og fremst sálfræðileg hjálp, og heldur ekki fyrst og fremst hjálp við sjálfri lömuninni. Heldur er það hjálp við sjúkdómnum sem olli báðum einkennum. Þeta er raunveruleg hjálp við raunverulegu vandamáli — aðal vandamálinu.

II: Guð einn getur fyrirgefið syndir

Og þá að næsta atriði. Því þetta fellur ekki vel í geðið á öllum sem verða vitni af því. Í herberginu sem þetta á sér stað sigja nokkrir fræðimenn. Og þeir segja með sjálfum sér “Hann guðlastar!”
Þótt frásögnin sýni okkur greinilega að þeir hafa rangt fyrir sér, er þessi dómur þeirra samt sem áður mjög skiljanlegur.
Það má kannski best segja það með orðum C.S. Lewis: “Við getum öll skilið hvernig maður fyrirgefur þeim sem hefur brotið gegn honum. Þú stígur á tærnar á mér, og ég fyrirgef þér. Þú stelur peningunum mínum, og ég fyrirgef þér. En hvað eigum við að segja um þann mann, sem þú hefur ekki stigið á tær, og ekki stolið peningunum hans, en samt sem áður lýsir hann því yfir að hann vilji fyrirgefa þér, fyrir það að stíga á tær annarra manna og stela peningum þeirra. Kjánaleg vitleysa er það fallegasta sem við getum sagt um þannig lagað.”
Kjánaleg vitleysa sagði Lewis. Guðlast sögðu farísear. Og hvort tveggja hefði það verið, ef venjulegur maður hefði sagt þessi orð. Hver getur eiginlega tekið sér vald til þess að fyrirgefa afbrot gegn þriðja aðila? Sem krakkar höfum við mörg okkar heyrt eitthvað í áttina að: “Ekki biðja mig fyrirgefningar, segðu það við systur þína eða bróður þinn.” Svoleiðis uppgjör þarf að eiga sér stað við þann sem á í hlut. Einungis Guð sjálfur hefur vald til að veita allmenna fyrirgefningu.
Svo er það líka þannig að öll brot sem þarfnast fyrirgefningar eru í raun og veru brot gegn Guði. Sá sem brýtur gegn sköpunnar hans, sá sem brýtur gegn þér, eða gegn náunga þínum, brýtur gegn skapara þínum, gegn Guði. Þess vegna þarf líka fyrigefning syndanna alltaf að koma frá honum.
Farísear skildu þetta vel. Ef Jesús tók sér vald til að fyrirgefa syndir mannsins, þá þýddi það að hann tók sér vald sem Guð einn hefur. Þeir höfðu rétt fyrir sér. Ef Jesús var bara venjulegur maður, þá var þetta guðlast.

III: “Til þess að þér vitið . . .”

Matthew 9:4–7 IS1981
4 En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: "Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? 5 Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar' eða: ,Statt upp og gakk'? 6 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér" - og nú talar hann við lama manninn: "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!" 7 Og hann stóð upp og fór heim til sín.
Nýja testamentið kennir okkur með mörgu móti að Jesús er ekki bara venjulegur maður, heldur er hann einnig Guð. En hvernig áttu farísear að vita það, og á hvaða grundvelli áttu þeir að trúa því? Og hvernig áttu þeir að vita að fyrirgefningin var raunverulega. Til þess gefur Jesús þeim tákn, og hann gerir það með því að lækna þennan lama mann.
Fyrirgefning syndanna er ósýnileg, og ómögulegt að staðfesta hana öðruvísi en að trúa henni. Lækningu lömunarinnar var hinsvegar hægt að staðfesta. Hvorugt var á færi venjulegs manns, en hvort tveggja er á valdi Guðs. Jesús gefur manninum fyrst meðalið við syndinni — Fyrrigefninguna — og því næst læknar hann lömunina. Þetta var dagur sem fyrrum lamaði maðurinn átti seint eftir að gleyma, og hann hélt fagnandi heim til sín.
Matthew 9:8 IS1981
8 En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Lokaorð

Syndin er skemmd sem bjó í lama manninum, og sem bjó í dóttur gamla mannsins sem talaði við fyrir mörgum árum síðan. Hún býr einnig í mér, og í öllum okkar. Syndin er okkar stærsta vandamál, og sá versti sjúkdómur sem við getum hugsað okkur.
Vísindi okkar tíma geta lindrað sum af einkennunum. Kannski hefðu þau getað hjálpað lama manninum á fætur, eða í það allra minnsta komið honum í hjólastól. En þau munu aldrei geta hjálpað gegn raunverulega vandamálinu, sem er syndin. Eina lausnin á henni er fyrirgefning.
Og Jesús hefur ekki einungis tekið sér vald til að fyrirgefa lama manninum og öðrum sem hann hitti hér á jörðu, heldur hverjum þeim sem leitar hans. Þess vegna hefur hann gefið okkur orð sitt í heilagri ritningu, og falið okkur að prédíka það. Við eigum að boða fyrirgefningu syndanna í nafni Jesú Krists.
Þá fyrirgefningu sem Jesús veitti lama manninum, veitir hann einnig þér og mér. Syndir hans voru fyrirgefnar í Krsti. Syndir okkar eru fyrigefnar í Kristi. Mér og þér er fyrirgefið í honum. Og hann kallar okkur til að trúa því og treysta. Farísear gengu út, en við skulum saman standa á fætur og játa trúna á hann.

Tilkynningar eftir messulok

Það sem er næst á dagskrá hjá okkur er biblíulestur á Zoom 1. nóvember. Síðan verða biblíulestrar aðra hverja viku þar til í desember.
Næsta messa er 11. desember kl 11:00 hér í kapellunni.
Ég sendi alltaf út tölvupóst á undan biblíulestri og messu. Ef þú vilt vera á listanum, láttu mig vita.
Related Media
See more
Related Sermons
See more