Lögmál og fagnaðarerindi
Sermon • Submitted • Presented
0 ratings
· 1 viewNotes
Transcript
English translation
https://sermons.faithlife.com/sermons/1247239
Sálmar í upphafi messu
Sálmar í upphafi messu
Upphafssálmur: Vor Guð oss lýsa lát þitt orð (Hefti 18)
Dýrðarsálmur: Son Guðs ertu með sanni (Sb 56, Hefti 02)
Kollekta
Kollekta
Drottinn Guð, himneski faðir! Vér þökkum þér að þú fyrir son þinn Jesú Krist, hefur sáð þínu heilaga orði á meðal vor. Undirbú þú svo hjörtu vor, að vér hlýðum orði þínu með athygli og guðræknum hug, geymum það í góðu og siðsömu hjarta og berum ávöxt með stöðuglyndi. Bænheyr oss fyrir þinn elskulegan son, Jesúm Krist, Drottin vorn, sem með þér og Heilögum Anda, lifir og ríkir, einn sannur Guð um aldir alda. Amen.
Ritningarlestur
Ritningarlestur
Fyrri ritningarlestur þessa Drottins dags er að finna í spádómsbók Jesaja, kafla 48, versum 16-19:
16 Komið til mín og heyrið þetta: Frá upphafi hefi ég eigi talað í leyndum; þegar kominn var sá tími, að það skyldi verða, kom ég. Nú hefir hinn alvaldi Drottinn sent mig með sinn anda. 17 Svo segir Drottinn, frelsari þinn, Hinn heilagi í Ísrael: Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. 18 Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins. 19 Niðjar þínir mundu þá verða sem fjörusandur og lífsafkvæmi þín sem sandkorn. Nafn hans mun aldrei afmáð verða og aldrei hverfa burt frá mínu augliti.
L: Þannig hljómar hið heilaga orð.
S: Guði sé þakkargjörð.
L: Síðari ritningarlestur þessa Drottins dags er að finna í Postulasögunni kafla 19, versum 9-15
9 Um nóttina birtist Páli sýn: Maður nokkur makedónskur stóð hjá honum og bað hann: "Kom yfir til Makedóníu og hjálpa oss!" 10 En jafnskjótt og hann hafði séð þessa sýn, leituðum vér færis að komast til Makedóníu, þar sem vér skildum, að Guð hafði kallað oss til þess að flytja þeim fagnaðarerindið. 11 Nú lögðum vér út frá Tróas og sigldum beint til Samóþrake, en næsta dag til Neapólis 12 og þaðan til Filippí. Hún er helsta borg í þessum hluta Makedóníu, rómversk nýlenda. Í þeirri borg dvöldumst vér nokkra daga. 13 Hvíldardaginn gengum vér út fyrir hliðið að á einni, en þar hugðum vér vera bænastað. Settumst vér niður og töluðum við konurnar, sem voru þar saman komnar. 14 Kona nokkur guðrækin úr Þýatíruborg, Lýdía að nafni, er verslaði með purpura, hlýddi á. Opnaði Drottinn hjarta hennar, og hún tók við því, sem Páll sagði. 15 Hún var skírð og heimili hennar og hún bað oss: "Gangið inn í hús mitt og dveljist þar, fyrst þér teljið mig trúa á Drottin." Þessu fylgdi hún fast fram.
L: Þannig hljómar hið heilaga orð.
S: Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs! Hvert annað ættum vér að fara!
Sálmur fyrir prédikun
Sálmur fyrir prédikun
Fyrir prédikun: Lofið vorn Drottin (Sb 03, Hefti 05)
Guðspjall
Guðspjall
P: Guðspjallið skrifar guðspjallamaðurinn Jóhannes
S: Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilega boðskap.
27 Í sama bili komu lærisveinar hans og furðuðu sig á því, að hann var að tala við konu. Þó sagði enginn: "Hvað viltu?" eða: "Hvað ertu að tala við hana?" 28 Nú skildi konan eftir skjólu sína, fór inn í borgina og sagði við menn: 29 "Komið og sjáið mann, er sagði mér allt, sem ég hef gjört. Skyldi hann vera Kristur?" 30 Þeir fóru úr borginni og komu til hans.
39 Margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar, sem vitnaði um það, að hann hefði sagt henni allt, sem hún hafði gjört. 40 Þegar því Samverjarnir komu til hans, báðu þeir hann að staldra við hjá sér. Var hann þar um kyrrt tvo daga. 41 Og miklu fleiri tóku trú, þegar þeir heyrðu hann sjálfan. 42 Þeir sögðu við konuna: "Það er ekki lengur sakir orða þinna, að vér trúum, því að vér höfum sjálfir heyrt hann og vitum, að hann er sannarlega frelsari heimsins." 43 Eftir þessa tvo daga fór hann þaðan til Galíleu.
P: Þannig hljómar hið heilaga guðspjall.
S: Lof sé þér Kristur.
Prédikun
Prédikun
Inngangur
Inngangur
Ritningarlestrarnir sem við höfum lesið í dag, sýna okkur með mjög sérstökum hætti hvernig Biblían talar til okkar með tvennum hætti. Eða kannski er beta að segja að boðskapur Biblíunnar sé tvíþættur.
Annar þáttur Biblíunnar er þá lögmál Guðs, og hinn þátturinn er fagnaðarerindið. Ekki einungis eru þessir þættir mjög ólíkir, en þeir eru að mörgu leyti algerar gagnstæður.
I: Fyrri þáttur, lögmálið
I: Fyrri þáttur, lögmálið
Það er fyrri þátturinn, lögmálið, sem alltaf hefur verið auðveldastur fyrir fólk að skilja, í það minnsta að einhverju leyti. Ef fólk sem ekkert þekkir til kristinnar trúar er spurt, hvað það haldi að hún fjalli um, þá er algengt að menn bendi á reglur, boð og bönn, og stundum á von um það að finna einvher verðlaun fyrir það að halda lögmálið.
Í fyrri ritningarlestrinum heyrðum við þessi orð úr Jesajabók. Það er Drottinn sjálfur sem talar til lýðs síns:
18 Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins. 19 Niðjar þínir mundu þá verða sem fjörusandur og lífsafkvæmi þín sem sandkorn. Nafn hans mun aldrei afmáð verða og aldrei hverfa burt frá mínu augliti.
Það ætti kannski að vera augljóst. Ef Guð er sá sem raunverulega er réttlátur framar öllum öðrum, og hann hefur skrifað lögmál sitt, þá er augljóst að boð hans og bönn eru af hinu góða. Guð vill ekki eyðileggja fyrir okkur með reglum sínum, heldur þvert á móti, gera líf okkar betra. Reyndar er það í það minnsta yfirlýst markmið flestra boða og banna, til dæmis í lagasafni Íslands, sem reyndar er mun stærra og flóknara heldur en lögmál Guðs.
Þar að auki hefur lögmál Guðs þá grundvallarreglu að boðin og bönnin skuli grundvallast í kærleika, fyrst til Guðs og svo til náungans. Til dæmis segir sjöunda boðorðoð: Þú skalt ekki stela, og áttunda boðorðið: Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Og ef við spyrjum:Nú? Hvers vegna ekki? Þá er svarið: Vegna þess að, þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig.
Þannig virka öll lögmál. Réttlæti samkvæmt lögmálinu snýst um að halda það. Lögmálið segir: Þú skalt! Og eina svarið sem við höfum, er að hegða okkur samkvæmt lögmálinu. Lögmálið talar sem sagt til okkar og um okkur, seg segir okkur hvað við eigum að gera, eða láta ógert. Þar af leiðandi snýst lögmál eignleg heldur ekki um trú.
Ef ég heyri fyrsta boðorðoð: Þú skalt ekki aðra Guði hafa! og svara: Já, því trúi ég svo sannarlega! Þá er ekki þar með sagt að ég hafi haldið það. Ég held það, með því að hafa ekki aðra guði. Og ef ég geri það ekki, þá missi ég af fyrirheitum lögmálsins, sem öll eru skilyrt.
Ef ég endurtek orðin frá Jesaja spámanni, skulum við taka eftir skilyrðinu:
18 Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.
Ef þú gefur gaum að boðorðunum, þá muntu eiga réttlætið.
Eigum við ekki bara að leggja okkur fram?
Eigum við ekki bara að leggja okkur fram?
Nú væri auðvelt að hugsa: Eigum við ekki bara að leggja okkur fram við að hlýða lögmálinu, þannig að við getum eignast fyrirheit þess, og reyndar einnig komist hjá ógnunum þess líka.
Vandamálið er bara það að algjört réttlæti samkvæmt lögmálinu krefst algerrar hlýðini. Og alger hlýðni krefst fullkomins hjarta, þar sem ekkert illt býr. Til að halda fimmta boðorðið fullkomnlega “Þú skalt ekki drepa!” þá er ekki nóg að fremja ekki verknaðinn, ef maður ber illsku í hjarta sínu gagvart náunga sínum. Við munum að hvötin til þess að halda boðorðin á að vera kærleikur til Guðs og til náungans.
Eins er það með sjötta boðorðið: “Þú skalt ekki drýgja hór.” Að halda það fullkomnlega snýst ekki einungis um að halda kynlífi innan hjónabands karls og konu, heldur einnig um afstöðu hjartans. Hjón eiga að elska hvert annað ótakmarkað, og enginn má bera girnd í hjarta til annara en eiginkonu eða eiginmanns. Svona má áfram telja.
Og þegar við skoðum okkur sjálf með einlægni, þá kemur fljótt í ljós að það er margt sem býr í hjartanu. Við erum ekki góð innst inni, því þar beinist brenglaður kærleikurinn fyrst og fremst að okkur sjálfum.
Þannig að ef við komum aftur að skilyrtu fyrirheiti lögmálsins, þá missum við af blessuninni. Og ekki nóg með það að við missum af blessuninni, eða öllu heldur blessununum, heldur lenda líka bölvanir og refsingar lögmálsins á okkur.
Og það er reyndar líka þetta sem saga Ísraelsþjóðar í Biblíunni opinberar fyrir okkur. Það var aldrei nein raunveruleg gullöld, þar sem allir lifðu í sátt við sáttmála Guðs. Allir menn, meira að sega þeir sem raunverulega þekkja vilja Guðs, hafa brotið gegn honum, og eru undir bölvun lögmálsins.
II
II
Þess vegna hefur boðskapur Biblíunnar líka hinn þáttinn, sem kallast fagnaðarerindið. Og það má segja að fagnaðarerindið sé sá boðskapur að öll fyrirheit lögmálsins, og reyndar meira til, eru gefin okkur á annari forsendu. Forsendu hinnar skilyrðislausu gjafar.
Hugsaðu þér að einhver kemur með stóran pakka til þín á aðfangadagskvöldi og segir: Gleðileg jól, ég ætla að gefa þér þennan pakka!
Þá er þín fyrsta hugsun varla: Bíddu við, hvernig á ég nú að fara að því?
Sú spurning á alls ekki við, vegna þess að þú þarft ekkert að gera. Gjöf er ekki eitthvað sem maður gerir, heldur eitthvað sem maður tekur við. Maður verður einfaldlega að trúa því og treysta að gjöfin sé raunveruleg gjöf, og að hvorki þurfi né eigi að gjalda neitt fyrir. Stundum gleymir maður meira að segja, að segja takk.
Fagnaðarerindið er þetta, að Guð sendi son sinn, til að taka á sig allar bölvanir lögmálsins í þinn stað — það er það sem gerðist þegar Jesús dó á krossinum fyrir þig. En ekki nóg með það, heldur hefur hann líka haldið lögmálið fullkomnlega, og unnið sér inn allar blessanir þess. Jesús er sá maður, sem ekki bar neina synd í hjarta sínu, heldur einungis kærleika. Þess vegna er hann sá eini sem nokkurn tímann hefur haldið lögmál Guðs fullkomnlega, og sá eini sem á rétt á blessunum þess. En hann heldur ekki þessum blessunum handa sjálfum sér einum, heldur býður hann þér að taka við þeim sem skilyrðislausri gjöf.
III
III
Hinn kristni boðskapur krefst þess að við heyrum báða þessa þætti. Við þurfum fyrst að heyra lögmálið, til að gera réttan greinarmun á réttu og röngu, en einnig til að gera okkur grein fyrir vonlausri stöðu okkar gagvart réttæti Guðs. Því næst þurfum við að heyra fagnaðarerindið, sem veitir okkur frelsi frá bölvunum lögmálsins, og á sama tíma gefur okkur öll fyrirheit þess á forsendu Krists. Og þegar við eigum öll þessi fyrirheit hvort sem er, getum við látið lögmál Guðs leiðbeina okkur með allt öðrum hætti. Það kennir okkur muninn á réttu og röngu, án þess að ógna okkur, vegna þess að Jesús tók ógnina á sig, og án þess að lofa nokkru upp í ermina á sér, vegna þess að Jesús gefur okkur allt sem lögmálið lofar.
Konan við brunnin
Konan við brunnin
Og það er þetta sem skýrir svo vel viðbrögð konunnar við brunnin, sem við lásum um áðan. Jesús hafði hitt þessa konu við Jakobsbrunn utanvið bæinn Sýkar í fjallbygðum Samaríu. Þar hafði hann bent henni á ákveðið atriði í lífi hennar, sem engann veginn var í lagi. Hugsanlega var hún jafnvel fyrirlitin og smáð af bæjarbúum, sem þá útkskýrir hvers vegna hún kom að brunninum í hita dagsins, þegar aðrir drógu sig í hlé. En í stað þess að fordæma þessa konu, kenndi Jesús henni að biðja hann, svo skyldi hann gefa henni eilíft líf.
Viðbrögðin eru sláandi. Hún hleypur inn í borgina og segir við fólkið sem er þar:
29 "Komið og sjáið mann, er sagði mér allt, sem ég hef gjört. Skyldi hann vera Kristur?"
Í fyrsta lagi hafði hún heyrt prédikun lögmálsins. Hún segir að Jesús hafi sagt sér alt sem hún hefur gjört. Og það var alls ekki allt af hinu góða, þótt svo að Jesús hafi bent henni á það með mikilli mildi. En áður en hún hljóp af stað hafði Jesús líka sagt við hana, bæði að er Kristur, og að hann vilji gefa henni eilíft líf. Með öðrum orðum, skyldi hann gefa henni, þá blessun lögmálsins, sem hún átti engan rétt á.
Þess vegna var það, að þegar ógn lögmálsins var að engu orðin, þá óttaðist hún ekki að tala við bæjarbúa og segja með svona mikilli dirfsku:
29 "Komið og sjáið mann, er sagði mér allt, sem ég hef gjört. Skyldi hann vera Kristur?"
Lokaorð
Lokaorð
Við skulum taka þetta saman í lokin.
Lögmál Guðs er fyrri þáttur boðskapar Biblíunnar, og það eru orð hans um okkur og til okkar, um það hvernig við eigum að breyta, hvað við meigum gera, hvað við eigum að gera, og hvað við meigum ekki gera. Ennfremur er það ófrávíkjanleg skipun um að elska ótakmarkað bæði Guð og náungann.
Lögmálið heitir okkur blessunum, bæði hér í lífi og í eilífðinni, fyrir að halda það, og ógnar okkur með alls konar bölvunum, bæði hér í lífi og í eilífðinni, fyrir að halda það ekki.
Og ef við skoðum okkur sjálf með einlægni kemur það fljótt í ljós hvoru megin við lendum. Þessi leið til eilífs lífs og eilífrar blessunar er okkur algerlega ófær.
Þess vegna hefur Guð sent okkur son sinn, til að taka bölvanir lögmálsins í okkar stað, og til að að halda það í okkar stað, og síðan gefa okkur eilífar blessanir þess, ekki sem verðlaun, heldur sem ótvíræða og skilyrðislausa gjöf. Við meigum einfaldlega taka við henni í trú, rétt eins og við tökum við hverri annari gjöf.
Og þá getum við nálgast lögmál Guðs, ekki á forsendum fyrirheita og ógnanna þess, heldur einfaldlega sem vitnisburð um vilja Guðs og sem leiðbeiningu í þeim kærleika til Guðs og manna, sem við erum kölluð til.
Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.
Játum saman trú okkar.
Sálmar eftir prédikun
Sálmar eftir prédikun
Eftir trúarjátningu: Mikil er náðin þín (Hefti 09)
Þakkarfórn: Mikli Drottinn, dýrð sé þér (Sb 29, Hefti 08)
Lokasálmur: Vor Guð er bjarg (284, Hefti 18)