Prédikun aðfangadags jóla 2024 (Julaft) Hirðarnir
Notes
Transcript
Kollekta
Kollekta
Drottinn Guð, himneski Faðir, við lofum þig og vegsömum fyrir hina miklu miskun þína, að þú sendir son þinn eingetinn, til að verða maður, og kunngerðir þetta hirðunum. Við biðjum þig: Gef oss heilagan anda þinn, og rek burt allan ótta úr hjörtum vorum. Veit okkur eilífa gleði yfir friðarfurstanum, og gef oss að taka þátt í eilífri lofgjörð englanna. Fyrir þennan elskulega son þinn Jesú Krist, sem með þér og Heilögum anda lifir og ríkir. Einn sannur Guð um aldir alda. Amen.
Guðspjall
Guðspjall
Guðspjall aðfangdags jóla er að finna í Lúkasarguðspjalli, 2. kafla, versum 1 til 20
«En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: “Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.” Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins, sögðu hirðarnir sín á milli: “Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss.” Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu. Þegar þeir sáu það, skýrðu þeir frá því, er þeim hafði verið sagt um barn þetta. Og allir, sem heyrðu, undruðust það, er hirðarnir sögðu þeim. En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það. Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð, en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.»
Predikun
Predikun
Það er eðlilegur hápunktur hátíðarinnar á aðfangadegi jóla að heyra orð jólaguðspjallsins úr 2. kafla Lúkasarguðpspjalls. Ef til vill ert þú vön eða vanur þvi að orðin séu lesin heima í stofu, eftir mat, og að þú heyrir þau lesin í kirkjunni. Mörg okkar lítum á það sem kjarna jólahátíðarinnar að sjá fyrir okkur myndina af Jesú í jötunni, umkringdan af Maríu og Jósef, hirðunum frá högunum utanvið bæinn Betlehem og vitringunum frá austurlöndum, sem komu til að veita honum lotningu.
I
I
Fyrir nokkru síðan sá ég á netinu skopmynd eftir fyrrverandi amerískan prest, þar sem hann reynir að benda á óvenjulegar hliðar varðandi fæðingu Jesú. Þessi teiknari kallar Maríu og Jósef ómerkilegt fólk, vitringana útlendinga og hirðana smáða undirstéttarmenn. Boðskapur hans er sem sagt að Jesús snéri sér til hinna smáðu og útskúfuðu. Sú athugun að litið var niður á hirða, eða öllu heldur leiguliða, á þessum tíma er hugsanlega rétt. En tilgangur hirðanna í þessari sögu ristir þó mun djúpar.
Öll ísraelsþjóð var nefnilega komin af þessari edstu stafsgrein mannkyns: hirðum og hirðingjum. Abel, sonur Adams og Evu var fyrsti fjárhirðir mannkynnsögunnar.
Abraham, ættfaðir ísraelsþjóðar, var að sjálfsögðu hirðingi. Það voru einnig Jakob og synir hans. Móses gætti sauða tengaföður sín á Sínaískaga, og Davíð konungur gætti sauða föður sín utan við Betlehem. Kynslsóðum saman fékkst ísraelsþjóð við sauðfé. Það var miðlægur hluti af þeirra lifnaðarhætti, ekki síst vegna þess að hreinleikalög gyðinga takmörkuðu þau dýr sem þeir gátu nýtt sér til matar. Enn fremur voru sauðir og lömb mikilvæg fórnardýr í musterinu í Jerusalem.
II
II
Bærinn Betlehem gengdi þar sérstöku hlutverku, því þar voru einmitt alin lömb, í þeim sérstaka tilgangi að fórna þeim í musterinu. Jólaguðspjallið segir það ekki berum orðum, en það er samt mjög líklegt að lömbin sem hirðarnir litu eftir, voru einmitt fórnarlömb, sem var slátrað til þess að miðla fyrirgefningu Guðs á syndum þeirra.
Því er það einstaklega sterkur atburður þegar englarnir birtast hirðunum og segja: “Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.”
Hirðarnir taka þá það ráð að yfirgefa hjörðina úti í haga, og finna Jesú í staðinn. Þeir hópuðust í kring um þann sem Jóhannes skírari síðar kallar Lamb Guðs, sem ber burt syndir heimsins. Þeir yfirgáfu öll þessi fórnarlömb, fyrir þann eina, sem átti að leysa þau öll af hólmi, og bera frtam sjálfan sig okkur til friðþægingar. Þannig merkja þeir hið eina og sanna fórnarlamb okkar.
III
III
Og þar með breytist líka starf hirðanna. Í stað þess að þeir sjái um fórnarlömbin, snýst það við. Nú sér fórnarlambið um þá. Þegar sama sagan er sögð í Matteusarguðspjalli, er vitna í spádómsbók Jesaja, til að sýna þessi umskipti. Þegar Heródes konungur spyr fræðimenn sína hvar Messías eigi að fæðast, svara þeir svona:
«Þeir svöruðu honum: “Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum: Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ertu síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma, sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.”» (Matt 2:5-6)
Nú er lambið orðið hirðirinn og við sem á hann trúum erum orðin lömb hans. Davíð konungur hafði séð þetta fyrir, öldum áður, þegar hann orti Sálm 23, og sagði “Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.”
Þannig er boðskapur jólahátíðarinnar í raun einfaldur. Kristur fæddist sem lamb Guðs, og hirðarnir í högunum utanvið Betlehem, báru því vitni þegar þeir komu og veittu honum lotningu. Hann bar sjálfan sig fram sem Guði þóknanlega fórn, í eitt skipti fyrir öll, og leysti þannig öll hin fórnarlömbin af hólmi. Nú er hann upp risin frá dauðum, og lifir og ríkir að eilífu, ekki einungis sem lamb Guðs, heldur einnig sem bæði konungur okkar og hirðir okkar. Við tökum því undir með Davíð konungi, og með Betlehemshirðunum, lítum til barnsins í jötunni, og segjum: Þar er fæddur Drottinn, minn hirðir, mig mun ekkert bresta!
Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.