Huggið lýð minn (3sía)
Sermon • Submitted
0 ratings
· 8 viewsNotes
Transcript
Sermon Tone Analysis
A
D
F
J
S
Emotion
A
C
T
Language
O
C
E
A
E
Social
Sálmar
Sálmar
Upphafssálmur: Einu sinni í ættborg Davíðs (566)
Fyrir ritningarlestur: Heyrið óma hátt um jörð
Fyrir prédikun: Guðs kristni í heimi. (81)
Þakkarfórn: Fögur er foldin
Lokasálmur: Heims um ból.
Kollekta
Kollekta
P: Drottin Guð, himneski Faðir, þú sem sendir son þinn í heiminn til þess að hann skyldi frelsa okkur synduga menn frá synd, dauða og valdi Satans, og að veita okkur eilíft líf. Við biðjum þig að hreinsa og stýra hjörtum okkar svo að við hneykslumst ekki á Drottni vorum Jesú Kristi, heldur trúum honum og geymum orð hans, getum þannig staðið gegn freistingum og örvæntingu, og eignast eilíft hjálæpræði. Fyrir Son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér og Heilögum Anda lifir og ríkir, sannur Guð um aldir alda.
A: Amen
Ritningarlestur
Ritningarlestur
Fyrri ritningarlestur þessa Drottins dags er að
finna í spádómsbók Jesaja kafla 40 versum 1-8
1 Huggið, huggið lýð minn! segir Guð yðar. 2 Hughreystið Jerúsalem og boðið henni, að áþján hennar sé á enda, að sekt hennar sé goldin, að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins fyrir allar syndir sínar! 3 Heyr, kallað er: "Greiðið götu Drottins í eyðimörkinni, ryðjið Guði vorum veg í óbyggðinni! 4 Sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólarnir skulu verða að jafnsléttu og hamrarnir að dalagrundum! 5 Dýrð Drottins mun birtast, og allt hold mun sjá það, því að munnur Drottins hefir talað það!" 6 Heyr, einhver segir: "Kalla þú!" Og ég svara: "Hvað skal ég kalla?" "Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins. 7 Grasið visnar, blómin fölna, þegar Drottinn andar á þau. Sannlega, mennirnir eru gras. 8 Grasið visnar, blómin fölna, en orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega."
L: Þannig hljómar hið heilaga orð.
S: Guði sé þakkargjörð.
L: Síðari ritningarlestur þessa Drottins dags er að finna í fyrra Korintubréfi, fórða kafla, versum 1-5
1 Þannig líti menn á oss svo sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs. 2 Nú er þess krafist af ráðsmönnum, að sérhver reynist trúr. 3 En mér er það fyrir minnstu að verða dæmdur af yður eða af mannlegu dómþingi. Ég dæmi mig ekki einu sinni sjálfur. 4 Ég er mér ekki neins ills meðvitandi, en með því er ég þó ekki sýknaður. Drottinn er sá sem dæmir mig. 5 Dæmið því ekki fyrir tímann, áður en Drottinn kemur. Hann mun leiða það í ljós, sem í myrkrinu er hulið, og opinbera ráð hjartnanna. Og þá mun hver um sig hljóta þann lofstír af Guði, sem hann á skilið.
L: Þannig hljómar hið heilaga orð.
S: Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs! Hvert annað ættum vér að fara!
Guðspjall
Guðspjall
P: Guðspjallið skrifar guðspjallamaðurinn Matteus
S: Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilega boðskap.
2 Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði: 3 "Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?" 4 Jesús svaraði þeim: "Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þér heyrið og sjáið: 5 Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi. 6 Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér." 7 Þegar þeir voru farnir, tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: "Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? 8 Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga. 9 Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann. 10 Hann er sá, sem um er ritað: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér,
er greiða mun veg þinn fyrir þér.
P: Þannig hljómar hið heilaga guðspjall.
S: Lof sé þér Kristur.
Prédikun
Prédikun
I: Staða Jóhannesar skírara
I: Staða Jóhannesar skírara
Texti þessa sunnudags byrjar hjá Jóhannesi skírara. Honum hefur verið hneppt í fangelsi fyrir það að gagrýna Heródes Antípas, sem var konungur í Galíleu, vegna hjónabands hans við bróðurdóttur sína Heródias. Og þar sat Jóhannes í fangaklefanum fyrir ranglæti konungsins, væntanlega vel vitandi að það gat komið að því að hann yrði tekinn af lífi — sem og átti sér stað stuttu síðar.
Jóhannes fréttir af verkum Krists, og sendir lærisveina sína af stað til þess að spyrja hann hvort hann sé raunverulega Kristur, eða hvort enn sé verið að bíða eftir komu hans.
Kirkjufeðrunum í frumkirkjunni þótti þessi spurning erfið, ekki vegna þess að það var erfitt að svara henni, heldur vegna þess að þeir gátu ekki ímyndað sér að Jóhannes skírari hefði nokkurn tímann efast. Sumir töldu þá svarið vera að Jóhannes hefði sent lærisveina sína þeirra eigin vegna — til þess að þeir færu og töluðu við Krist, og sæju hann eigin augum.
En ef við gætum vel að, virðist sú skýring ekki standast. Það er orð Jóhannesar sem kemur til Krists, og hann sendir orðsendingu til baka til Jóhannesar. Ákveðnir hlutir höfðu verið opinberaðir fyrir honum, og hann hikaði ekki við að prédika þá. En það þýðir ekki að hann skildi allt, enda hafði hann áður viðjað varna Jesú að skírast af honum í Jórdan. Og nú dúsdi hann í fangelsi, án þess að Kristur kæmi og leysti hann út. Átti ekki Messías að vera sonur Davíðs, hinn réttimæti konungur Ísrael. Átti hann ekki að reka óvininn á dyr, og byrja annað hvort á rómverjum eða Heródesarættinni sem í raun kom frá þjóðinni Edóm?
Með öðrum orðum ætti það ekki að vera mikið mál að lesa orðin eins og þau standa: Spurningin og svarið voru samskipti milli Jóhannesar skírara og Jesú Krists. Það er alls ekki óhugsandi að Jóhannes hafi setið með brostnar væntingar, og það hafi valdið nægilega miklum efa til þess að hann spurði allavega.
II: Staða okkar
II: Staða okkar
Eins getum við, sem lifum tveimur öldum síða, upplifað sömu tilfinningar. Það eru vonbrigði að sjá hvernig kristin trú hefur fölnað og horfið úr landinu. Færri og færri koma saman í kirkjum og samkomuhúsum, og á sama tíma eykst andstaðan gegn kristinni trú. Það er ráðist á hana vegna synda presta og prédíkara, vegna breyttrar siðfræði í samfélaginu og vegna þess að stækkandi hópur telur trú á eilífan Guð vera hindurvitni.
Lífið með Kristi er ekki alltaf eins og við helst vildum að það væri. Það er ekki endalaus halarófa af sigrum, heldur upplifum við andstöðu, hatur, smán og jafnvel þjáningar vegna Jesú Krists.
Rétt eins og Jóhannes skírari, getum við staðið okkur sjálf að því að spyrja: Er hann þá virkilega sá er koma skal, eða eigum við að vænta annars? Ætti hann ekki að geta gert eitthvað í þessu ef hann virkilega er sá sem hann segist vera? Eða í verst falli: Eigum við kannski ekki að vænta neins yfir höfuð? Svarið við þessarri spurningu skiptir sköpum. Enda er trú okkur háð því að vera sönn. Postulinn Páll skrifar í 1 Cor 15:14 “En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar.”
Svar Krists
Svar Krists
Við ættum þess vegna að sperra upp eyrun og hlusta á það svar sem Jesús sendir Jóhannesi. Svona hljómar það:
5 Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi.
Kristur kom alls ekki á laun, heldur opinberlega. Af verkum hans voru margir sjónarvottar. Í fimmtánda kala fyrra Korintubréfs segir postulinn Páll að Kristur hafi birst meira en fimm hundruð sjónarvotta samtímis, og voru margir þeirra enn á lífi þegar hann skrifaði bréfið. Meðal þeirra hafði Jesús áður útvalið tólf, sem áttu að sinna þessu hlutverki sérstaklega. Allir tólf, nema auðvitað Júdas Ískaríot og hugsanlega postulinn Jóhannes, létu þeir lífið fyrir þennan vitnisburð. Kristur kom, fæddur af mey, eins og áður hafði verið sagt fyrir munn spámannsins Jesja (Jes 7:14).
14 Fyrir því mun Drottinn gefa yður tákn sjálfur: Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel.
Eins er vitnaðu um kraftaverk Krists i sömu bók. Til dæmis: “Menn þínir, sem dánir eru, skulu lifna, lík þeirra rísa upp.” (Jes 26:19) “Á þeim degi skulu hinir daufu heyra rituð orð, og augu hinna blindu skulu sjá út úr dimmunni og myrkrinu.” (Jes 29:18) “Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi, því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum.” (Jes 35:5-6) og halda mætti áfram með sama hætti.
Jóhannes skírari þekkti þessa spádóma vel, og það er engin spurning að Jóhannes skildi hvað Jesús átti við. Svarið var í raun einfalt: Já, Kristur er sá sem koma átti! Og rétt eins og Jóhannes heyrði þessi orð frá lærisveinum sínum, heyrum við hin sömu orð gegnum vitnisburð sjónarvottana, sem rituðu niður hin postullegu rit nýja testamentisins.
III: Huggið lýð minn
III: Huggið lýð minn
En er það ekki furðulegt að þessi orð ættu að hughreysta og hugga Jóhannes, þegar hann þurfti áfram að dúsa í fangelsinu, og ekki var honum heldur bjargað frá höggi Heródesar. Hann kom ekki út úr fangelsinu á lífi. Eins getum við spurt hvaða huggun við höfum þegar æ fastar er þjarmað að þeim sem trúa á Krist og treysta honum.
Þessu hafa fyrri og síðari ritningarlestur þegar svarað.
Fyrri ritningarlestur talar um huggun fyrir Lýð Guðs, en er það ekki einmitt þannig að það er einungis sá sem syrgir og er hrelldur sem þarfnast huggunar. Lýður Ísraels horfði uppá að land þeirra var hertekið af Babýlón og þjóðin færð í útleigð. Svo kemur huggunarorðið. Ég les það aftur:
1 Huggið, huggið lýð minn! segir Guð yðar. 2 Hughreystið Jerúsalem og boðið henni, að áþján hennar sé á enda, að sekt hennar sé goldin, að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins fyrir allar syndir sínar! 3 Heyr, kallað er: "Greiðið götu Drottins í eyðimörkinni, ryðjið Guði vorum veg í óbyggðinni! 4 Sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólarnir skulu verða að jafnsléttu og hamrarnir að dalagrundum! 5 Dýrð Drottins mun birtast, og allt hold mun sjá það, því að munnur Drottins hefir talað það!" 6 Heyr, einhver segir: "Kalla þú!" Og ég svara: "Hvað skal ég kalla?" "Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins. 7 Grasið visnar, blómin fölna, þegar Drottinn andar á þau. Sannlega, mennirnir eru gras. 8 Grasið visnar, blómin fölna, en orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega."
Í fyrsta lagi á Ísraelsþjóð ekki lengur neitt sem ekki hefur verið gert upp við Guð. Í öðru lagi er Drottni lýst á óttafenginn hátt. Ekkert getur staðist frammi fyrir honum. Allt frá hinum minnstu bómum, sem fölna við anda hans, til hæstu fjalla og lægstu dala sem jafnast út. Þetta ættu Ísraelsmenn að skilja vel, sem margoft hafa gengið milli fjallaborgarinnar Jerúsalem (um 750m), og dauðahafsins, sem er staðsett tæpum hálfum kílómeter undir sjávarmáli (430m). Og frammi fyrir Drottni jafnast allt þetta út.
Huggunin felst í þessu að Drottinn, sem lýst er með þessum orðum, stendur með Ísrael. Hann er með þeim í liði. Hugsið ykkur ef krakkar í grunnskóla væru að skipta í tvö fótboltalið, og annað liðið fengi að hafa atvinnumann í sínu liði. Það væri ógn að standa gegn honum, en mikill léttir að hafa hann með sér. Eða eins og krakkar voru vanir að segja: Pabbi minn er miklu sterkari en pabbi þinn. Og auðvitað var þá einhver sem gat svarað í gríni: Já, en pabbi minn er prestur og getur jarðað pabba þinn.
Ritningin kallar okkur til að óttast Guð, þ.e. að kannast við að enginn er máttugri en hann. Að hafa hann sem óvin er svo hræðilegt að það er ekki hægt að hugsa það til enda. En síðan segir þessi sami Drottinn: “óttist ekki!” Því hann stendur með þeim sem á hann trúa og treysta.
Kristur býður okkur að treysta honum í ljósi þessa. Já, það getur birst okkur sem þverstæða að treysta honum, þegar það lítur út fyrir að óvinir hans séu sigurstranglegir. Þeir tóku meira að segja hann sjálfan af lífi. Og einmitt þess vegna treystum við honum. Hann var tekinn af lífi, en sigraðist á sjálfum dauðanum. Hver getur eiginlega unnið sigur á þeim sem dauðinn getur ekki haldið? Þess vegna getum við verið þolinmóð og treyst honum.
Til lengdar skiptir þá litlu þótt heimurinn hati okkur eða jafnvel dæmi okkur, hvort sem það er með lagalegum dómi, eða dómi almúgans. Því að lokum er það Drottinn sjálfur sem dæmir, hann sem enginn fær staðist frammi fyrir.
Lokaorð
Lokaorð
Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.
Við játum saman trú okkar samkvæmt Níkeujátningunni.