1sip: Friður sé með yður
Notes
Transcript
Sermon Tone Analysis
A
D
F
J
S
Emotion
A
C
T
Language
O
C
E
A
E
Social
Sálmar
Sálmar
Upphafssálmur: Lofsyngið Drottni (SB 009)
Fyrir ritningarlestur: Dýrð í hæstum hæðum (SB 004)
Fyrir prédikun: Dauðinn dó en lífið lifir (SB 156)
Fyrirbæn safnaðarins: Drottinn vor konungur, dýrlegt er nafn þitt hið blíða (SB 005)
Þakkarfórn: Þér lof vil ég ljóða (SB 535)
Lokasálmur: Nú gjaldi Guði þökk (SB 026)
Tilkynningar fyrir messu
Tilkynningar fyrir messu
Velkomin til messu í JELK. Við erum Játningarbundin Evangelísk Lútersk kirkja. Vonandi hafa allir fengið messuskrá og sálmabók með auka söngblaði. Yfirlit yfir sálmana er hérna á veggnum.
Ég heiti Sakarías Ingólfsson og er prestur þessa verkefnis, ég mun prédika og þjóna fyrir altari. Við höfum engann fastan organista, nema að einhver vilji hlaupa inn í hlutverkið í þessu augnabliki, en annars mun ég gera mitt besta til að leiða sönginn á píanóinu líka.
Kollekta
Kollekta
Almáttugi, eilífi Guð! Vér biðjum: Veit þú oss að vér, sem haldið höfum þessa páskahátíð, mættum fyrir þína náð komast frá þrældómi syndarinnar til hins andlega frelsis, og með réttri trú og kristilegum kærleika þjóna Jesú kristi, þínum elskulega syni, Drottni vorum, som með þér og Heilögum Anda lifir og ríkir, sannur Guð um aldir alda. Amen.
Ritningarlestur
Ritningarlestur
Fyrri ritningarlestur þessa Drottins dags er að finna í spádómsbók Jesaja, fertugasta og þriðja kafla, versum átta til þrettán.
8 Lát nú koma fram lýð þann, sem blindur er, þótt hann hafi augu, og þá menn, sem daufir eru, þótt þeir hafi eyru. 9 Lát alla heiðingjana safnast í einn hóp og þjóðirnar koma saman.
Hver af þeim getur kunngjört slíkt og látið oss heyra það, er áður er fram komið? Leiði þeir fram votta sína og færi sönnur á mál sitt, svo að menn segi, er þeir heyra það: "Það er satt!"
10 En þér eruð mínir vottar, segir Drottinn, og minn þjónn, sem ég hefi útvalið, til þess að þér skylduð kannast við og trúa mér og skilja, að það er ég einn. Á undan mér hefir enginn guð verið búinn til, og eftir mig mun enginn verða til.
11 Ég, ég er Drottinn, og enginn frelsari er til nema ég.
12 Það var ég, sem boðaði og hjálpaði og kunngjörði, en enginn annar yðar á meðal, og þér eruð vottar mínir - segir Drottinn.
Ég er Guð. 13 Já, enn í dag er ég hinn sami.
Enginn getur frelsað af minni hendi. Hver vill gjöra það ógjört, sem ég framkvæmi?
L: Þannig hljómar hið heilaga orð.
S: Guði sé þakkargjörð.
L: Síðari ritningarlestur þessa Drottins dags er að finna í fyrsta Jóhannesarbréfi, fimmta kafla, versum fjögur til tólf.
4 því að allt, sem af Guði er fætt, sigrar heiminn, og trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.
5 Hver er sá, sem sigrar heiminn, nema sá sem trúir, að Jesús sé sonur Guðs?
6 Hann er sá sem kom með vatni og blóði, Jesús Kristur. Ekki með vatninu einungis, heldur með vatninu og með blóðinu. Og andinn er sá sem vitnar, því að andinn er sannleikurinn. 7 Því að þrír eru þeir sem vitna [í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. Og þeir eru þrír sem vitna á jörðunni:] 8 Andinn og vatnið og blóðið, og þeim þremur ber saman. 9 Vér tökum manna vitnisburð gildan, en vitnisburður Guðs er meiri. Þetta er vitnisburður Guðs, hann hefur vitnað um son sinn. 10 Sá sem trúir á Guðs son hefur vitnisburðinn í sjálfum sér. Sá sem ekki trúir Guði hefur gjört hann að lygara, af því að hann hefur ekki trúað á þann vitnisburð, sem Guð hefur vitnað um son sinn. 11 Og þetta er vitnisburðurinn, að Guð hefur gefið oss eilíft líf og þetta líf er í syni hans. 12 Sá sem hefur soninn á lífið, sá sem ekki hefur Guðs son á ekki lífið.
L: Þannig hljómar hið heilaga orð.
S: Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs! Hvert annað ættum vér að fara!
Við syngjum saman Dauðinn dó en lífið lifir, númer 156 í sálmabókunum
Guðspjall
Guðspjall
P: Guðspjallið skrifar guðspjallamaðurinn Jóhannes.
S: Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilega boðskap.
Guðspjall þessa drottins dags er að finna í Jóhannesarguðspjalli, tuttugasta kafla, versum nítján til þrjátíu og eitt, og hljómar svo í Jesú nafni.
19 Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: "Friður sé með yður!" 20 Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin. 21 Þá sagði Jesús aftur við þá: "Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður." 22 Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: "Meðtakið heilagan anda. 23 Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað." 24 En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom. 25 Hinir lærisveinarnir sögðu honum: "Vér höfum séð Drottin." En hann svaraði: "Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa." 26 Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: "Friður sé með yður!" 27 Síðan segir hann við Tómas: "Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður." 28 Tómas svaraði: "Drottinn minn og Guð minn!" 29 Jesús segir við hann: "Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó." 30 Jesús gjörði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna, sem eigi eru skráð á þessa bók. 31 En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.
P: Þannig hljómar hið heilaga guðspjall.
S: Lof sé þér Kristur.
Prédikun
Prédikun
Inngangur
Inngangur
Þrívegis í guðspjalli þessa drottins dags heyrum við orðin: Friður sé með yður.
Þessi orð skipta texta guðspjallsins í þrjár minni einingar.
I : Í fyrsta sinn: Friður sé með yður
I : Í fyrsta sinn: Friður sé með yður
Það var komið að kveldi fyrsta páskadag, daginn þegar Jesús reis upp frá dauðum, og englar frá hinum opnuðu gröfina til þess að lærisveinar Jesú gætu séð að hún var tóm. Jesús var þar ekki lengur.
Þannig hófst langur og spennandi dagur.
Frá morgni til kvölds höfðu komið fregnir til postulanna úr ýmsum áttum, og ekki laust við að þeir voru í nokkurri ringuleið. Fyrst voru það konurnar sem höfðu farið til grafarinnar árla morguns. Þær höfðu fundið gröfina tóma og vissu ekki hvað orðið hafði af líkama Jesú. Pétur og Jóhannes hlupu til grafarinnar og fundu hana líka tóma. Jesús birtist svo Maríu Magdalenu og hinum konunum, og þær sögðu postulunum einnig frá þessu. Síðar um daginn birtist hann Símoni Pétri, og hann greindi hinum frá. Síðdegis birtist hann tveimur lærisveinum á leið til bæjarins Emmaus. Einnig þeir hlupu til Jerúsalem — jafnvel eftir myrkur, þegar von gat verið á ræningjum — til að greina frá því sem þeir höfðu séð og heyrt.
Niðurstaðan var augljós: Jesús hafði gert hið ómögulega. Hann var upp risinn frá dauðum.
Kannski var það einmitt vegna þessa, sem lærisveinarnir voru svo hræddir við viðbrögð Gyðinga.
Prestarnir höfðu þegar á föstudagskvöldi haldið því fram að lærisveinarnir myndu reyna að stela líkama Jesú. Þeir höfðu heyrt Jesú tala um upprisuna, og vildu sjá til þess að hún yrði ekki sviðssett. Hérna, í þessu eina tilviki, virðast þeir hafa hlustað betur á Jesú heldur en lærisveinarnir.
Þess vegna sáu þeir til þess að rómverskir verðir vour staðsettir við grafarmunnan. Prestarnir höfðu komið því til leiða að Jesús var krossfestur, og gert það sem þerir gátu til að halda honum kyrrum í gröfinni. Þá var spurningin á hverju þeir gátu tekið uppá eftir atburði dagsins? Læriveinarnir höfðu lítinn áhuga á því að komast að því af eigin raun, og þess vegna læstu þeir sig inni.
Jesús, sem gengið hafði gegnum klettaveggi grafarinnar, gekk nú inn í þetta læsta herbergi, og stóð mitt á meðal þeirra. hann heilsaði þeim með þessum orðum: “Friður sé með yður!”
Það liggur kannski beinast við fyrir okkur að skilja þetta sem venjulega kveðju. Gyðingar eru jú vanir því að heilsa hver örðum með hebreska orðinu fyrir frið.
Shalom ‘aleychem þýður einmitt “Friður sé með þér” Sömu kveðju nota líka arabar á sínu máli, Al-Salamu alaykum. Ennfremur varð friðarkveðjan algeng í frumkirkjunni, þar með talinn sem hluti af helgisiðum hennar. Gildir ekki hið sama um þessa kveðju Jesú?
Nei, því samhengið sýnir okkur að þetta er meira heldur en kveðja. Hér er um að ræða frið Guðs. Englarnir utanvið Betlehem sungu um þennan frið fyrir hirðana á jólanóttu: “Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu og mönnunum velþóknun.” Jesús talaði um þennan frið á skírdagskvöldi:
John 14:27 (IS1981)
27 Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur.
Hér er ekki verið að tala um frið sem eitthvert innra jafnvægi eða þá tilfinningu sem getur fylgt raunverulegum friði. Jesús er að tala um vöruna sjálfa: Raunverulegan frið! Frið við Drottinn Guð! Þetta er ekki bara kveðja, heldur yfirlýsing.
Friður Drottins sé með yður.
Ekki er það heldur bara kurteisisleg ósk, heldur byggist þessi yfirlýsing á mjög ákveðinni forsendu: A séð hafi verið um það sem kom í veg fyrir friðinn.
Þ.e. að séð hafi verið um sekt syndarinnar. Því það var Kristur sjálfur sem sá um það, og sönnunina er að finna í sárunum í höndum hans og síðu.
Syndin, sem reitti Guð til reiði, sem vann sér til sektar fyrir það að brjóta gegn lögmáli Guðs, og sem lá undir dómi hans, hafði verið afplánuð. Sektin, sem er dauðinn, hefur verið greidd. Sárin í hönum Krists og síðu hans er því til sönnunar. Réttilega fögnuðu postularnir þegar þeir sáu Jesú, því þeir höfðu öðlast fyrirgefningu syndanna, og áttu þar með frið við Drottinn Guð.
II: Í annað sinn: Friður sé með yður
II: Í annað sinn: Friður sé með yður
En friður Drottins var auðvitað aldrei ætlaður postulunum einum. Þegar Jesús talar þessi orð í annað sinn, hefur hann það fyrir stafni.
21 Þá sagði Jesús aftur við þá: "Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður." 22 Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: "Meðtakið heilagan anda. 23 Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað."
Hér bera orðin “Friður sé með yður” nefnilega svolítið aðra merkingu. Í fyrsta skiptið var Friður Drottins gefinn postulunum. Í þetta sinn talar Jesús um að friður hans eigi að fylgja postulunum, og að þeir eigi að bera hann út. Eins og Faðirinn sendi Krist, eins sendir Kristur nú lærisveina sína, til að prédíka nákvæmnlega þessi sömu orð. Þegar sendiboðar Krists hafa Heilagan Anda með sér, og tala þessi orð, þá er það Kristur sjálfur sem talar. Þannig rætast orð hans sem hann talaði nokkrum dögum áður, og við finnum í 13. kafla jóhannesarguðspjalls:
20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem tekur við þeim, sem ég sendi, hann tekur við mér, og sá sem tekur við mér, tekur við þeim er sendi mig."
Postulunum var gefið það verk að prédika fagnaðarerindið um upprisu Krists, það er að segja sigur hans yfir dauðanum. Og með þeim sigri kemur fyrirgefning syndanna og friður við Guð til allra manna. Jesús ávann okkur þennan sigur á krossinum. Þar greiddi hann alla okkar sekt.
Loforðið um að þetta eigi að koma þér og mér til gagns, kemur til okkar í krafti Heilags Anda með prédikun fagnaðarerindisins. Og það er einmitt þetta sem er fagnaðarerindið: Kristur hefur sigrað yfir dauðanum, áunnið okkur fyrirgefningu syndanna, og nú býðst hún okkur einfaldlega sem yfirlýsing um það að syndir okkar eru fyrirgefnar. Svo veitum við fyrirgefningunni viðtöku, einfaldlega með því að trúa og treysta á hana. Ef þú trúir þá hefur þú, ef þú treystir þá átt þú.
III: Í þriðja sinn: Friður sé með yður
III: Í þriðja sinn: Friður sé með yður
Við lesum áfram
26 Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: "Friður sé með yður!" 27 Síðan segir hann við Tómas: "Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður."
Tómas er gjarnan nefndur lærisveinninn sem eftaðist. Og vissulega er það réttnefni, því það var einmitt það sem hann hafði gert. Hann sagði: Joh 20:25 “Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.”
En það er önnur hlið á þessu máli líka. Tómas var maður sem vildi horfast í augu við veruleikann eins og hann er. Fyrr í Jóhannesarguðspjalli, er Tómas fyrstur lærisveinanna til að segja Joh 11:16 “Vér skulum fara líka [til Jerúsalem] til að deyja með honum.”
Tvímælalaust hefði Tómas átt að trúa vitnisburði hinna postulanna, sem höfðu allir séð hinn upprisna Krist. En hér er þó mikilvægt að taka eftir því að það er ákveðin hlutverkaskipting í ríki Guðs, og mjög tiltekið verk sem var falið postulunum tólf. Þeir áttu nefnilega að vera sjónarvottar, ekki bara um allt það sem Jesús gerði og kenndi þegar hann gekk með postulunum, heldur einnig að dauða hans, upprisu og himnaför. Tómas hafði enn ekki séð hinn upprisna Krist með eigin augum, og vantaði því grundvallarforsendu fyrir sínu hlutverki. Það er Pétur postuli sem bendir á þetta í fyrsta kafla Postulasögunnar, þegar velja átti mann til að fylla í skarðið eftir svikarann Júdas Ískaríot. Hann sagði:
21 Einhver þeirra manna, sem með oss voru alla tíð, meðan Drottinn Jesús gekk inn og út vor á meðal, 22 allt frá skírn Jóhannesar til þess dags, er hann varð upp numinn frá oss, verður nú að gjörast vottur upprisu hans ásamt oss."
Grundvallarhlutverk postulans var að vera vottur, þ.e.a.s sjónarvottur um upprisu Krist, og að prédika þetta fagnaðarerindi, og fyrirgefningu syndanna allt til enda veraldar.
Viku eftir páska, þ.e.a.s. á þessum sunnudegi, birtist Jesús þeim aftur, og nú var Tómas með þeim. Jesús birtist þeim með sömu orðum og hann hafði gert á kvöldi páskadags: Friður sé með yður. Svo sýnir hann Tómasi hendur sínar og síðu, eins og hann hafði sýnt hinum postulunum að kvöldi páskadags. Þar með var Tómas líka orðinn sjónarvottur hins upprisna Krists.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Játning Tómasar er og verður grundvallarjátning kristinnar kirkju:
28 Tómas svaraði: "Drottinn minn og Guð minn!"
Það gæti vel verið ósk okkar að við fengjum að sjá hinn upprisna Krist með sama hætti og Tómas, og kannski gætum við þá sagt skilið við allar okkar efasemdir. En þá kemur aftur að hlutverkaskiptingunni í ríki Guðs. Hlutverk Tómasar var að vera sjónarvottur. En það er ekki hlutverk okkar. Hlutverk okkar er að taka við vitnisburði sjónarvottanna eins og hann er kominn til okkar í ritningunum.
Þegar Jesús baðst fyrir í Getsemanegarði, bað hann bæði fyrir postulunum, og okkur sem komum til trúar fyrir vitnisburð þeirra. Jesús bað fyrir postulunum með þessum orðum:
14 Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. 15 Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. 16 Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. 17 Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur. 18 Ég hef sent þá í heiminn, eins og þú sendir mig í heiminn. 19 Ég helga mig fyrir þá, svo að þeir séu einnig helgaðir í sannleika.
20 Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra, 21 að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig.
Síðan segir Kristur aftur við Tómas, eftir að Tómas hefur játað hann sem Drottinn sin og Guð:
29 Jesús segir við hann: "Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó."
Það erum við, sem situjum hér í dag, og öll kirkja Krists eftir daga postulanna, sem ekki höfum séð, en trúum þó. Við trúum á Krist fyrir vitnisburð postulanna. Þess vegna snýr höfundur guðspjallsins sér nú að lokum beint til lesandans og bætir við:
31 En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.
Því sjálft guðspjallið er einmitt vitnisburður sjónarvottarins Jóhannesar, skrifaður niður fyrir tilstuðlan Heilags Anda, sem Jesús andaði á hann, eins og við heyrðum fyrr í guðspjallinu.
Lokaorð
Lokaorð
Þessi vers, sem við höfum lesið í 20. kafla Jóhannesarguðspjalls kenna okkur það, fyrst af öllu, að Kristur hefur áunnið okkur fyrirgefningar syndanna og frið við Guð, með dauða sínum og upprisu. Sármerkin í höndum hans og á síðu hans eru því til merkis og sönnunar. Þessi friður er borinn út til okkar með yfirlýsingu Krists á fyrirgefningu syndanna, með orðunum “Syndir þínar eru þér fyrirgefnar” og “Friður sé með þér.”
Við tökum við þessum orðum með því að heyra þau og trúa þeim og treysta. Í stað þess að reyna að réttlæta okkur sjálf, eða halda því fram að við þurfum enga réttlætingu, treystum við því að Kristur vinni það allt saman. Það er sú eina leið sem okkur er gefin.
Að lokum eru það lærisveinar Krists, sem hann hefur kallað til að bera friðinn út með prédikun Faganaðarerindisins. Til þess hefur hann veitt lærisveinum sínum Heilagan Anda, til þess að það sé andinn sjálfur sem talar, og skapar trú í hjörtum þeirra sem hlusta, heyra og geyma orðin í hjarta sínu. Friður sé með yður!
Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda, sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.
Játum nú saman trú okkar.
Tilkynningar eftir messulok
Tilkynningar eftir messulok