Miskunnsami samverjinn (13set-a)

Sermon  •  Submitted
0 ratings
· 11 views
Notes
Transcript
Sermon Tone Analysis
A
D
F
J
S
Emotion
A
C
T
Language
O
C
E
A
E
Social
View more →

Sálmar

Upphafssálmur: Komum, fögnum fyrir Drottni (212)
Fyrir ritningarlestur: Hver fögur dyggð í fari manns (195, lag 118)
Fyrir prédikun: Vor Guð oss lýsa lát þitt orð (söngblað)
Þakkarfórn: Guðs kirkja er byggð á bjargi (288)
Lokasálmur: Nú héðan á burtu í friði eg fer (424)

Kollekta

Almáttugi, eilífi Guð! Gróðursettu oss í þínum kærleika, svo að við getum elskað þig umfram allt, og náungan eins og okkur sjálf, og orðið hæfileg fyrir þá himnesku sælu, sem þú hefur heitið okkur af þínum eilífum kærleika. Bænheyr oss fyrir þinn son, Jesú Krist, Drottinn vorn, sem með þér lifir og ríkir, sannur Guð um aldir alda. Amen.

Ritningarlestur

Fyrri ritningarlestur þessa Drottins dags er að finna í Fyrstu mósebók kafla 4 versum 3-16
Genesis 4:3–16 IS1981
3 Og er fram liðu stundir, færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. 4 En Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og af feiti þeirra. 5 Og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans, en til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun. Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur. 6 Þá mælti Drottinn til Kains: "Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur? 7 Er því ekki þannig farið: Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni?" 8 Þá sagði Kain við Abel bróður sinn: "Göngum út á akurinn!" Og er þeir voru á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann. 9 Þá sagði Drottinn við Kain: "Hvar er Abel bróðir þinn?" En hann mælti: "Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?" 10 Og Drottinn sagði: "Hvað hefir þú gjört? Heyr, blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni! 11 Og skalt þú nú vera bölvaður og burt rekinn af akurlendinu, sem opnaði munn sinn til að taka á móti blóði bróður þíns af þinni hendi. 12 Þegar þú yrkir akurlendið, skal það eigi framar gefa þér gróður sinn. Landflótta og flakkandi skalt þú vera á jörðinni." 13 Og Kain sagði við Drottin: "Sekt mín er meiri en svo, að ég fái borið hana! 14 Sjá, nú rekur þú mig burt af akurlendinu, og ég verð að felast fyrir augliti þínu og vera landflótta og flakkandi á jörðinni, og hver, sem hittir mig, mun drepa mig." 15 Þá sagði Drottinn við hann: "Fyrir því skal hver, sem drepur Kain, sæta sjöfaldri hegningu." Og Drottinn setti Kain merki þess, að enginn, sem hitti hann, skyldi drepa hann. 16 Þá gekk Kain burt frá augliti Drottins og settist að í landinu Nód fyrir austan Eden.
L: Þannig hljómar hið heilaga orð.
S: Guði sé þakkargjörð.
L: Síðari ritningarlestur þessa Drottins dags er að finna í fyrra Jóhannesarbréfi, kafla 4, versum 7-11
1 John 4:7–11 IS1981
7 Þér elskaðir, elskum hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð. 8 Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur. 9 Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann. 10 Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar. 11 Þér elskaðir, fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan.
L: Þannig hljómar hið heilaga orð.
S: Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs! Hvert annað ættum vér að fara!

Guðspjall

P: Guðspjallið skrifar guðspjallamaðurinn Lúkas
S: Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilega boðskap.
Luke 10:23–37 IS1981
23 Og hann sneri sér að lærisveinum sínum og sagði við þá einslega: "Sæl eru þau augu, sem sjá það sem þér sjáið. 24 Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það sem þér heyrið, en heyrðu það ekki." 25 Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: "Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?" 26 Jesús sagði við hann: "Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?" 27 Hann svaraði: "Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig." 28 Jesús sagði við hann: "Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa." 29 En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: "Hver er þá náungi minn?" 30 Því svaraði Jesús svo: "Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. 31 Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. 32 Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. 33 En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, 34 gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. 35 Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.' 36 Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?" 37 Hann mælti: "Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum." Jesús sagði þá við hann: "Far þú og gjör hið sama."
P: Þannig hljómar hið heilaga guðspjall.
S: Lof sé þér Kristur.

Prédikun

Við höfum nú heyrt tvær frásagnir úr Biblíunni, sem eru að mörgu leyti andstæður. Fyrri sagan sagði frá tveimur af sonum Adam og Evu, þeim Kain og Abel. Báðir báru fram fórn fyrir Guð, Kain af ávöxtum jarðarinnar og Abel af sauðfé hjarðar sinnar. Sérstaklega er tekið fram að Abel fórnaði af frumburðum hjarðarinnar og feiti þeirra, eins og síðar verður að ákvæði í lögmálinu.
Í bréfinu til Hebrea kemur einnig fram að Abel bar fram sína fórn í trú og trausti til Guðs. Ekkert er sagt um Kain þar, en í frásögninni í fyrstu Mósebók kom þó í ljós að hann var fjótur að öfunda og hata bróður sinn. Það er því ekki úr vegi að ætla að hann hafi átt von á því að fá eitthvað í staðinn fyrir fórn sína.
Það má ætla að trú og traust Abels ástæðan fyrir því að Guð leit með velþóknun til fórnar Abels, en ekki Kains. Fyrir Kain skipti það þó varla miklu máli. Sama hver ástæða Guðs var, bitrast Kain það mikið að hann ákvað að drepa bróður sinn í leyni úti á akri. Þegar Guð svo spyr hann hvar Abel sé, segist Kain ekkert vita, og bætir svo við spurningu:
Á ég að gæta bróður míns?
Þrátt fyrir að þetta hafi verið nokkuð slök tilraun til að beina athyglinni í burtu, er svarið kannski ekki alveg augljóst. Var það á ábyrgð Kains að gæta Abels bróður síns? Við skulum geyma þessa spurningu aðeins, áður en henni er svarað, skulum við líta á síðari frásögnina.

Miskunnsami samverjinn

Því löngu, löngu síðar kemur lögvitringur til Jesú og spyr hann hvernig hann megi öðast eilíft líf.
Jesús spyr hann þá hvort sáttmáli Guðs við ísraelsþjóð, þ.e.a.s lögmál Móse, hafi ekki eitthvað um það mál að segja. Jú, svo sannarlegla, það veit þessi lögvitringur vel. Hann kann augljóslega Biblíuna sína vel, og svarar svona:
Luke 10:27 IS1981
27 Hann svaraði: "Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig."
Gott svar! Þetta er sá kjarni sem lögmálið allt snýst um. Jesús segir það sjálfur í 22. kafla Matteusarguðspjalls, þear annar lögvitringur spyr hann hvað sé æðsta boðorðið. Allt lögmálið og spámennirnir hvíla á þessum tveimur boðorðum, að við eigum að elska Guð og náungann.
Ekki nóg með það, heldur er þetta eitthvað sem við getum skilið: Við eigum að koma fram við Guð og menn af kærleika. Er ekki bara hægt að hafa þetta bara svona einfalt. Til hvers eru þá öll hin boðorðin, og allar aðrar reglur. Er einhver þörf fyrir það? Nútímamanninum líkar það vel, sem stöðugt endurtekur frasa eins og “ást er ást” eða “kærleikur er kærleikur.” Vandamálið er bara það, að svoleiðis yfirlýsing er svo algild, að ein og sér, án þess að kærleikurinn sé skilgreindur frekar, þýðir þetta alls ekki neitt.
Ritningin segir að Þú átt að elska Guð af öllu hjarta, sálu og mætti! En hvernig fer maður eiginlega að því? Í hverju felst það?
Ritningin segir að þú átt að elska náungann eins og sjálfan þig! En hver er eiginlega þessi náungi, og hvað felst eiginlega í því að elska hann?
Kannski hefði þessi lögvitringur getað svarað því að einhverju leyti. Hann þekkti augljóslega ritningarnar, og hlaut þess vegna að hafa hugsað um þessa hluti áður.
Í raun er það þannig, eins og dæmisaga Jesú sýnir okkur, að hver sá sem Guð setur í veg okkar, er náungi okkar, sem við eigum að elska eins og okkur sjálf. Og aðstæðurnar segja fyrir um það hvernig við eigum að gera það. Öllum þeim sem slasaði maðurinn varð í vegi fyrir, bar þess vegna skylda til þess að sýna honum kærleika í verki, með því að nema staðar, líta á manninn, og gera það sem stóð í þeirra valdi til að bjarga honum. Hér eru aðstæðurnar svo augljósar að það þarf ekki að spyrja að því hvað levítinn og presturinn hefðu átt að gera.
En auðvitað er þetta ekki alltaf svona einfalt. Ef allir þeir sem verða á vegi okkar eru náungi okkar, þá er augljóst að náunginn hefur ekki allaf þörf á fyrstu hjálp. Hvernig eigum við þá að vita hvernig við eigum að fara að?
Til að leiðbeina okkur hefur Guð gefið okkur lögmál sitt, í sínu einfaldasta formi í boðorðunum tíu. Fyrstu borðorðin þrjú segja okkur hvernig við eigum að elska Guð: Þú skalt ekki aðra guði hafa. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, og halda skaltu hvíldardaginn heilagann.
Hin boðorðin sjö, segja okkur hvernig við eigum að elska náungann. Hér kemur straks fram að sá kærleikur mótast af því hver náunginn er. Fjórða boðorðið, Heiðra skaltu föður þinn og móður, kennir okkur að börn á öllum aldri eiga að elska foreldra sína með þeim hætti að þauð heiðra þá og hlýða þeim. Sjötta boðorðið, þú skalt ekki drýgja hór, kennir okkur að hjón eiga að elska hvort annað. Eiginmaður á ennfremur að elska konuna sína með öðrum hætti en hann elskar t.d. bréfberann, jafnvel þótt bæði séu þau náungi hans. Móðir á að elska sín börn með öðru móti en hún elskar börn nágrannans. Ekki væri gott ef hún færi með allan hópinn í sumarfrí til sólarlanda, án þess að spyrja nokkurn.
Mörg boðorðana eiga þó við um alla: Fimmta boðorðið: Þú skalt ekki mann deyða. Sjöunda boðorðið: Þú skalt ekki stela. Áttunda boðorðið: Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Og það þýðir ekki bara að við eigum ekki að ljúga neinu upp á aðra, heldur einnig að við meigum ekki ófrægja, baktala og tala illa um náungann, eða taka orð hans í neinu öðru en besta skilningi.
Ritningin kennir okkur þannig, ekki bara að elska Guð og náungann, heldur einnig hvað kærleikurinn er, og hvernig við komum fram af kærleika í mismunandi aðstæðum. Að halda boðorð Guðs er kærleikur í verki, eins og Jesús sjálfur segir:
John 14:15 IS1981
15 Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín.

Spurning Kains

Þannig að, þegar Kain spyr hvort hann eigi að gæti bróður síns, þá er það auðvitað villandi spurning, eins og Kain vissi mæta vel. Auðvitað átti hann ekki að vera barnapía fyrir bróður sinn, sem var fullorðinn maður. En, aftur á móti átti hann að elska bróður sinn eins og sjálfan sig, og láta sér annt um hann. Og þar með:Já! Að gæta hans, og hjálpa honum þegar þörf var á.
Þess í stað öfundaði hann Abel, og öfundin varð síðan að hatri, og hatrið að dauða.
Níunda boðorðið kennir okkur: Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns, og tíunda boðorðið: Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokku það sem náungi þinn á.
Níunda og tíunda boðorðið kenna okkur það að við meigum ekki öfunda náunga okkar, og ekki einu sinni girnast það sem tilheyrir honum. Því þótt afleiðingarnar séu sjaldan svona skelfilegar, leiðir slík girnd allavega aldrei til góðs.
Það er svarið við spurningu Kains: Þú skal elska náunga þinn eins og sjálfan þig.

Lokaorð

En höfum við þá líka fengið svar við spurningu lögvitringsins? Hún var í raun svolítið öðruvísi, því það sem hann spurði Jesú um var þetta:
Luke 10:25 IS1981
25 Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: "Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"
Jesús lét lögvitringinn sjálfan gefa sér tvöfalda kærleiksboðorðið sem samantekt á lögmálinu öllu, og svarar svo:
Luke 10:28 IS1981
28 Jesús sagði við hann: "Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa."
Það er nokkuð augljóst að sá sigur sem fólst í því að hafa rétt fyrir sér, ekki var mjög skemmtilegur. Því afleiðingin var að nú varð lögvitringurinn að lifa samkvæmt þessum orðum. Og allir sem raunverulega, og án fordóma, líta í eigin barm, hljóta að gera sér grein fyrir því að það er ógerningur að halda svona boðorð. Enginn nema Guð einn getur elskað ótakmarkað.
Og fyrst ótakmarkaður kærleikur, samkvæmt orði Krists, er forsenda þess að öðlast eilíft líf, þá er illa fyrir okkur komið. Jafn illa og eiginlega mun verr, en fyrir manninum í dæmisögunni sem lenti í höndunum á ræningjunum. Og það er sennilega helst hann sem við ættum að líkja okkur við. Lögmál Guðs, sem hefði átt að hjálpa okkur, hefur þess í stað sært okkur, og sýnt okkur veikleika okkar. Við erum lifandi, en samt sem áður dauðvona.
Ýmsir ganga framhjá okkur. Prestar og levítar geta ekki bjargað okkur með því að kenna okkur muninn á réttu og röngu. Því hvað hjápar það okkur að vita hvað er gott og rétt ef við getum ekki farið eftir því? Hvað hjálpar það okkur að vita hvað kærleikur er ef við getum ekki elskað fullkomnlega, eins og tvöfalda kærleiksboðorðið krefst af okkur? Hefði ekki verið betra að vera óvitandi sæll og glaður?
En þar sem við liggjum dauðvona í syndum okkar, kemur hinn miskunnsami samverji gangandi. Það er enginn annar en Kristur sjálfur, sem nemur staðar, og kennir í brjósti um okkur. Han stígur niður af himni og gerist maður, til að geta bundið um sár syndarinnar. Hann lyfir okkur upp á eigin herðar og ber okkur gegnum líf og dauða. Og þótt við lifum um stundarsakir hjá gestjöfum kirkjunnar, er það bara stopp á leiðinni. Því hann mun snúa aftur, og mun þá sækja okkur heim til sín.
Miskunnsami samverjinn í dæmisögu Krists er fullkomin fyrirmynd fyrir því hvernig við eigum að breyta, og sannarlega eigum við einmitt að taka hann til fyrirmyndar. En jafnvel framar því er hann mynd af Kristi, hinum fullkomna miskunnsama samverja, sem gerir alla hluti upp fyrir okkur, sem bindur um sár okkar, og sem frelsar okkur frá dauðanum.
Okkar mikla von er því ekki að hafa miskunnsama samverjann sem fyrirmynd, heldur er það miskunnsami samverjinn sjálfur, Jesús Kristur, Drottinn vor.
Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.
Játum saman trú okkar.
Related Media
See more
Related Sermons
See more